Slegist við vindmillur

Umræða með ólíkindum
Umræðan um veiðigjöld er oftar en ekki með ólíkindum. Andstæðingar atvinnugreinarinnar hafa ítrekað haldið því fram í þjóðfélagsumræðunni að ekki sé hægt að halda úti velferðakerfi vegna þess að núverandi ríkisstjórn hafi svo gott sem fellt niður veiðigjöldin (þau eru nú um 10 milljarðar á ári), enda borgi útgerðin engan veginn sanngjarnt gjald fyrir afnotin. Formenn Vinstri Grænna og Samfylkingarinnar tilheyra þessum hópi og ekki annað að skilja en þau muni vilja halda áfram vegferð síðustu ríkistjórnar í sjávarútvegsmálum. En hvað eru sanngjörn veiðigjöld og hvernig á að finna þau út? Þeir sem hæst tala um gjafakvóta og hækkun veiðigjalda hafa aldrei útskýrt hvernig atvinnugreinin á að lifa þær villtu hugmyndir sem síðasta ríkisstjórn lagði til! Ákvörðun veiðigjalda er alvarlegt mál og nauðsynlegt að skoða afleiðingar þeirra á alla sem málið varða, þjóðarbúið, sjávarbyggðir, stafsfólk og atvinnugreinina. Ábyrgðalausar upphrópanir til að ná eyrum væntanlegra kjósenda eru í besta falli lýðskrum.
Góð framleiðni sjávarútvegs
Góð afkoma sjávarútvegsfyrirtækja gefur ekki tilefni til að hækka veiðigjöld. Verðmætasköpun og framleiðni í greininni er ein af forsendum lífskjara þjóðarinnar og hefur áhrif á kaupmátt í samfélaginu. Íslenskur sjávarútvegur er sú grein á Íslandi sem skilar bestri framleiðni og framundan gætu verið miklir framfaratímar, með sterkum fiskistofnum og nýrri tækni og þekkingu, til að sækja enn frekar fram á því sviði. Ef aðrar atvinnugreinar, og hið opinbera, gætu fylgt í fótspor sjávarútvegs væri lítið mál að auka almennan kaupmátt í samfélaginu.
Rekstraraðilar útgerða búa við mikla óvissu þegar kemur að veiðum og verðmætasköpun, og eru háð veðurfari og ástandi veiðistofna. Til viðbótar kemur pólitísk óvissa en þar hefur álagning veiðigjalda vegið einna þyngst. Rétt er að taka því fram að útgerðin greiðir skatta og aðrar skyldur til viðbótar við veiðigjöld.
Feigðarflan vinstri manna
Ef veiðigjöld hefðu orðið eins og fyrri ríkistjórn lagði upp með, stæði útgerð á Íslandi ekki undir sér. Hugmyndin var að ríkið tæki til sín 69,5% af vergum hagnaði, en reyndar hefði sjávarútvegur ekki þurft að greiða tekjuskatt þar sem veiðigjöld tækju af allan hagnað. Við þær aðstæður myndi enginn fjárfesta í greininni þar sem fyrirfram væri ljóst að hlutfé myndi hverfa í taprekstri og enginn banki myndi lána til sjávarútvegs. Eru stjórnmálamenn tilbúnir að ganga svo langt til að sækja jaðarfylgi í pólitík?
Annað sem bent hefur verið á sem afleiðing veiðigjalda er samþjöppun í útgerð þar sem smærri og veikari fyrirtæki gefast upp og þau stærri, sem ráða yfir stórum hluta virðiskeðjunnar, taka þau yfir. Þetta kann að vera hið besta mál til að bæta verðmætasköpun og framleiðni en stjórnmálamenn verða að gera ráð fyrir afleiðingum þessa og áhrifin á margar sjávarbyggðir landsins. Í dag standa stærstu og smæstu útgerðir landsins vel en skuldir margra millistórra eru meiri en reksturinn stendur undir. Þær skuldir eru að mestu tilkomnar við kaup á aflaheimildum, eru semsagt vegna nýliðunar í greininni!
Rekur sig allt á annars horn
Andstæðingar atvinnugreinarinnar tala eins og ríkisvaldið eigi að stilla veiðigjöld þannig af að ef vel gangi taki veiðigjöldin hagnaðinn til ríkisins, og væntanlega skrúfa niður í þeim þegar harðnar á dalnum; svona skammta úr hnefa. Hvernig í ósköpunum á að stilla það af og hverjir eiga að taka þær ákvarðanir? Ef góður hagnaður við veiðar og vinnslu markíls undanfarin ár hefði átt að renna að miklu leyti til ríkisins, eins og áður var lagt upp með, hvernig átti þá að slaka á þegar þessi hagnaður dregst verulega saman? Eða er meiningin að þetta verði allt stillt af í ráðuneytinu og þeir sem best standa sig verða ofurskattlagðir og hinum sem verr standa bætt að upp? Svona ný tegund af millifærslukerfi? Þegar menn eygja ný tækifæri vegna nýrra markaða eða tækni þá hækki tollheimtumennirnir veiðigjaldið til að keisarinn fái sitt?
Ef undirritaður ætti auðlindina einn og fengi aðila til að nýta hana fyrir sig, myndi hann aldrei setja svo hátt nýtingargjald að þeir gætu ekki rekið fyrirtæki sín með góðu móti til langs tíma. Ofurskattlagning í skamman tíma væri ekki hagsmunir leigusala. Er trúlegt að sósíalískt kerfi skapi nægilega hvatningu fyrir fyrirtæki og mannauð til að vera á tánum og hámarka verðmætasköpun í sjávarútveg? Stemmingin í umræðinni er eins og málið sé að sigra óvininn (sjávarútveginn) og minnir oft óneitanlega á Don Quijote og slagsmálin við vindmyllurnar.
Gunnar Þórðarson viðskiptafræðingur


Um bloggið

Gunnar Þórðarson

Höfundur

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum.  Fordómalaus frelsisunnandi og heimshornaflakkari. Hefur búið í Rússlandi, Kanada, Mexíkó, Sri Lanka og Uganda en aldrei fór ég suður. 

Okt. 2015
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Ísl fáninn
  • IMG_6866
  • IMG_6817
  • Gefa mótor
  • gefa money

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 283870

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband